Athuga þessi tillaga er frá árinu 2013, það á eftir að útfæra hana í samræmi við breyttar áherslur og ábendingar frá hagaðilum. 

Árið 2013 var samkeppni haldin um Laugavegssvæðið.

Markmiðið samkeppninnar var að styrkja Laugaveginn sem  aðal verslunargötu Reykjavíkur og í takt við ört vaxandi umferð gangandi vegfarenda. Þannig myndi bættur Laugavegur laða að fólk og styðja betur við verslun og þjónustu sem veitt er í götunni. Við hönnun Laugavegarins skyldi draga fram alla helstu kosti hans  sem verslunar- og göngugötu og með öllum þeim gæðum sem gatan  hefur upp á að bjóða. Efla skyldi það mannlíf sem þar er og hefur verið að aukast á undanförnum árum.

Í samkeppnislýsingu voru eftirfarandi markmið og áherslurtil hliðsjónar

 • Styðja við verslunarrekstur, veitinga- og viðburðahald við Laugaveginn.
 • Efla þungamiðjur við Laugaveginn, bæði með því að skapa nýjar og efla þær sem til staðar eru en eru kannski óvirkar í dag.
 • Fjölga uppbrotum við Laugaveginn; m.a. með því að virkja og efla starfsemi sem gætu átt sér stað í þak- og bakgörðum við Laugaveginn.
 • Að hönnunin myndi umgjörð um lifandi og aðlaðandi staði sem ýti undir aukin og gagnkvæm samskipti fólks. Umhverfisleg gæði verði hámörkuð og skapað verði gott aðgengi fyrir alla.
 • Styðja ímynd Laugavegarins sem eins elsta verslunarkjarna Reykjavíkur svo að tíðarandi húsa og götu falli sem best saman. Huga að merkingum og reglum um skilti og auglýsingabúnað með það að leiðarljósi að skapa ákveðna ró í götunni en ekki ,,Vegas“ stemningu á Laugaveginum. Búnaður, götugögn og annað sem hönnuðir kjósa að velja sé í anda Reykjavíkur eða norrænna borga.  Áhersla skal lögð á að bæta göturýmið og efla gæði umhverfisins á allan hátt. Það á jafnt við um umferðarflæði götunnar, bæði bíla, gangandi og hjólandi, og allan ársins hring þar sem snjóbræðsla verður lögð í allt göturýmið.Eftirfarandi áherslur eiga að einkenna hönnun götunnar:
 • Heildarmynd sem endurspeglar gæði og góðan borgarbrag, sem hefur sterkt aðdráttarafl fyrir alla.
 • Gatan verði lifandi borgarumhverfi með fjölbreyttu mannlífi og fjölnota möguleikum.
 • Skapa þægilegt og vistleg almenningsrými fyrir íbúa og gesti Laugavegarins.
 • Umferðarskipulag taki mið af þörfum allra vegfarenda með þeim takmörkunum sem gatan sem slík setur, allan ársins hring jafnt sumar sem vetur.
 • Gott aðgengi hreyfihamlaðra og sjónskertra sé tryggt eins og kostur er.
 • Þjónustuumferð vegna nauðsynlegrar starfsemi í götunni – aðföng – aðgengi að verslunum, veitingahúsum, gististöðum o.fl. Ekki er gert ráð fyrir bifreiðum af stærstu gerð í götunni, né hópferðabifreiðum lengri en 8 metrar.
 • Öryggi umferðar.

 Það teymi sem þótti skara frammúr var teymi Arkís, Landhönnunar og Verkís. 

Í dómnefndaráliti segir:

Tillagan sýnir góða og sannfærandi útfærslu, þar sem efnisval er gott og hugmyndir vel útfærðar. Texti í greinargerð er mjög skýr og hnitmiðaður að úrlausnum. Leiðarlínan er hugmynd sem virðist virka vel og tengir sögu svæðisins inn í hönnunina. Lýsing í götu og rýmum er vel leyst sem og við götugögn. Götutorg eru áhugaverð og sama má segja um lausn á bílastæðum fyrir mismunandi árstíma. Tillögur um götugögn og gróðurbeð virka sannfærandi. Hugmyndir um yfirborð eru með góðu jafnvægi en vinna mætti meir með efnisval. Athuga þarf betur flæði gangandi umferðar og bíla.

 

Tillagan er vel unnin, sýnir ágætt heildaryfirbragð Laugavegar og góðar úrlausnir.