Laugavegur hefur frá fyrstu tíð verið iðandi af mannlífi. Í árdaga áður en bíllinn kom til sögunnar voru íbúar gangandi eða á hestum á Laugavegi annað hvort á leið til og frá vinnu eða við dagleg störf. Gjarnan nýttu vegfarendur tækifærið til að versla, fara í banka eða annarra erinda. Laugavegur hefur ávallt verið verslunarrými og farið í gegnum umbreytingatímabil bæði með tilkomu bíla og breyttra verslunarhátta. Enn þann dag í dag er Laugavegurinn sú gata borgarinnar þar sem flestir gangandi vegfarendur fara um daglega.

Hvers vegna göngugötur?

Göngugötur eru sá áfangastaður borga sem flestir heimsækja til þess að dvelja á. Göngugötur efla samskipti og auka lífsgæði borgarbúa. Flestir sem fara um Laugaveg gera það fótgangandi en umferð bifreiða er einnig mikil en þeim fylgir mengun af völdum útblásturs og svifryks. Göngugötur eru eðlilegur áfangi í þróun borga og hefur reynslan sýnt að íbúar borga vilja göngugötu í miðborgum.

Hvaða áhrif hafa göngugötur á verslun?

Í nágrannalöndum okkar hefur verslun aukist við gönguvæðingu. Við göngugötur þrífst jafnan blómleg verslun við þá sem eiga greitt aðgengi að þeim í rólegu umhverfi. Við Laugaveg eru fjölbreyttar verslanir og veitingastaðir og eykur það verulega  mannlíf yfir allan sólarhringinn.

Hvað með veðrið?         

Frá 1960 hafa göngugötur verið opnaðar víða í Skandinavíu. Þessar göngugötur eru í nánast hverjum dönskum, norskum og sænskum bæ óháð stærð, staðsetningu eða veðurfari. Hvorki regn, kuldi, né vindur hefur hamlað þessari þróun. Rannsóknir hafa sýnt að sami fjöldi gesta kemur á öllum árstíðum á þessar götur óháð veðri.

Hvar á ég að leggja?

Það er ódýrast að leggja í stæði í bílahúsum, Stjörnuport, Vitatorg og Traðarkot eru næst Laugavegi. En í nágrenninu eru enn fleiri hús þar sem hægt er að finna stæði. Alls eru stæðin 1394 í bílahúsum í miðborginni. http://bilastaedasjodur.is

Hvað með þá sem eiga erfitt með gang?

Bílastæðum fyrir hreyfihamlaða er komið fyrir á hliðargötum næst göngugötum en einnig er til skoðunar hvort setja skuli P-stæði inn á svæðið. Helstu hindranir á Laugavegi hefur verið aðgengi inn í verslanarými á jarðhæðum. Tröppur og aðrar misfellur geta verið mikill farartálmi en með göngugötum verður hægt að leysa slíkt með því að slétta yfirborð og hækka götuna. Einnig gefst færi til að útbúa rampa þegar meira rými myndast með tilkomu göngugötu en nú er.

Hvað með vörulosun?

Vörulosun er vandasöm á Laugavegi, rými fyrir stóra flutningabíla er lítið og vandkvæðum bundið að leggja við götuna á annatíma. Með því að breyta Laugavegi í göngugötu verður gatan opin fyrir vöruflutningaraðila milli 7-11 á morgnana. Þá er rýmið laust við almenna umferð og bíla í bílastæðum sem eru hamlandi. Vörulosunaraðilar geta því lagt bílum sínum nær áfangastað sem flýtir fyrir og auðveldar vöruflutning um götuna til muna.

Hvað með íbúa við göngugötur?

Íbúar með stæði inn á lóðum við göngugötur geta fengið leyfi til að aka um göngugötur en aðgangi verður stýrt um rafdrifna polla. Við sérstakar aðstæður geta íbúar einnig fengið afnot af göturýminu utan tilskilins vöruflutningatíma t.d. ef staðið er í flutningum, viðgerðum á húseign o.s.frv.

Hvað með neyðarakstur? lögregla, sjúkraflutningar og slökkvilið?

Viðbragðsaðilar hafa ætið aðgang að svæðinu og fá aðgang í gegnum rafdrifna polla.