Göngugötur eru kjörnar fyrir fólk sem vill lifa lífinu í fjölbreyttu og litríku umhverfi. Strikið í Kaupmannahöfn nýtur feikilegra vinsælda meðal íslenskra ferðalanga og auðvelt að heyra íslensku talaða þar. Spennandi verður að fylgjast með göngugötum í Reykjavík í framtíðinni en göngusvæði sumarsins opnar 1. maí 2019.

Göngugötur fyrirfinnast í alls konar borgum út um allan heim: stórum sem smáum, þéttum sem gisnum, köldum sem heitum. Allar eiga þær það sameiginlegt að vera vinsælar meðal borgarbúa, enda oft griðarstaður frá hávaða, slysahættu og slæmum loftgæðum sem er óumflýjanlegur fylgifiskur bílaumferðar. Göngugötur eru því jafnan vinsæll samkomustaður fólks sem gerir sér glaðan dag, fer á vina- eða viðskiptafund, fólks sem fer í verslunarferðir eða sem fer til að njóta veitinga.

Strikið í Kaupmannahöfn

Strikið er vafalaust þekktasta göngugatan í augum Íslendinga, eða Strøget, göngugatan sem tengir saman Ráðhústorgið og Kóngsins nýja torg í Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur og fyrrum höfuðborgar Íslands. Þótt svo virðist sem gatan hafi ávallt verið göngugata er það ekki alveg svo einfalt. Strikið hefur aðeins verið göngugata frá árinu 1962. Ráðstöfunin var upprunlega tímabundin, en svo fór að hún var gerð varanleg tveimur árum síðar árið 1964. Í raun kom aldrei til þess að bílar legðu svæðið aftur undir sig því íbúar voru frá upphafi langflestir ánægðir með göngugötuna.

Strikið tíminnSagt var frá göngugötuvæðingu Striksins í íslenskum fjölmiðlum. Þessi fyrirsögn birtist í Tímanum, 22. nóvember 1962. Þar segir jafnframt að ungir sem aldnir hafi „tvistað“ við tilefnið, sem verður að teljast nokkuð gott.

Morðhótanir vegna göngugötu

Alfred Wassard, borgarfulltrúi og borgarstjóri skipulagsmála í Kaupmannahöfn er jafnan kallaður „faðir göngugötunnar.“ Wassard, sem var meðlimur Danska íhaldsflokksins, systurflokks Sjálfstæðisflokksins, í Danmörku, var á því máli að bílar væru farnir að taka of mikið pláss í miðbæ Kaupmannahafnar á eftirstríðsárunum. Fjölmargir borgarbúar voru á sama máli. Hann hafði því frumkvæðið af áðurnefndri tímabundinni lokun sem var umdeild og mikið rædd í fjölmiðlum. Það voru helst verslunareigendur við austurenda Striksins sem mótmæltu hástöfum. Töldu þeir sig missa viðskiptavini sem gætu ekki lengur ekið í gegnum Strikið. Fjölmargir þessara verslunareigenda seldu lúxusvörur á borð við úr og skartgripi, sem höfðu rekið verslanir við götuna um árabil. Fór svo að Alfred Wassard fékk fjölda morðhótana á þessum tíma og þurfti hann sérstaka lögregluvernd vegna ákörðunarinnar um göngugötuna. Í viðtali frá árinu 2012 upplýsti sonur Wassards að þessi tími hafi reynt mikið á föður sinn. Hann hafi þó verið ákveðinn í að taka slaginn, það þyrfti að hreinsa loftið á Strikinu, í mjög bókstaflegri merkingu.

OstergadeStrikið við Østegade um 1890. Áður en bílar hófu innreið sína var mikið mannlíf á götunni sem borgarbúar vildu gjarnan endurheimta. Mynd: Bymuseet.

Dansað á götunni

Ákvörðunin um að loka fyrir bílaumferð á Strikinu var kynnt í byrjun október árið 1962 og rúmum mánuði síðar, eða þann 17. nóvember, var blómahliði komið fyrir við austurenda götunnar, og henni þar með lokað formlega fyrir bílaumferð. Um 25 þúsund manns gengu fylktu liði niður götuna ásamt Alfred Wassard sem gekk fremstur. Tugþúsundir fylgdust með af gangstéttunum, blómum var dreift til vegfarenda og lúðrasveit sporvagnstjóra lék hátíðlega tónlist. Fólk fór bókstaflega að dansa á götunum en á meðan heyrðist einnig í bílflautum frá hliðargötum í mótmælaaðgerðum bílstjóra sem voru súrir með ráðstöfunina. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Strikið hafði verið gert bíllaust frá tilkomu einkabíla, það hafði reglulega verið gert í jólavertíðinni, yfirleitt frá 21. desember fram að jólum. Þá hafði tölfræði sýnt að fjöldi gangandi vegfarenda tvö- til þrefaldaðist við lokun bílaumferðar. Samkvæmt talningum danska arkitektsins Jan Gehl eru jafnan um 120-130 þúsund gangandi vegfarendur sem nota Strikið síðasta sunnudag fyrir jól en á milli 40-50 þúsund á venjulegum vetrardegi. Á sumrin eru gangandi vegfarendur um 80 þúsund hvern einasta dag.

Lúðrasveit sporvagnstjóra reynir að athafna sig í mannfjöldanum þann 17. nóvember þegar Strikið varð formlega að göngugötu. Mynd: Københavns Museum.

Bílaborgin Kaupmannahöfn

Fyrir þá Íslendinga sem hafa vanið komur sínar til Kaupmannahafnar á undanförnum árum og áratugum kann það að hljóma undarlega að Kaupmannahöfn varð að mikilli bílaborg á eftirstríðsárunum, rétt eins og Reykjavík. Þetta átti einnig við þótt Strikið hafi verið gert bíllaust. Á árunum 1962 til 1978 var farið í umfangsmiklar framkvæmdir undir stjórn borgarstjórans Urbans Hansen, sem fólust meðal annars í því að leggja niður sporvagnakerfi borgarinnar, ryðja í burtu sögufrægum byggingum til að leggja hraðbrautir og byggja um leið úthverfi í jaðri byggðar. En göngugatan Strikið lagði þó sitt af mörkum til að snúa við þessari þróun, eins og fyrrnefndur Jan Gehl hefur bent á. Jeanette Sadik-Khan, fyrrum samgöngustjóri New York-borgar hefur einnig sagt að til að breyta heiminum, þá þarf að byrja á einni götu. Á meðan bílaborgin Kaupmannahöfn varð stærri, háværari og mengaðri, stækkaði um leið bíllaust svæði í miðborginni. Olíukreppan 1973 lagði sitt af mörkum, fólk vildi gjarnan fá valkosti í samgöngum á nýjan leik. Valkostirnir voru því skýrari enn nokkru sinni fyrr. Annars vegar bílaborgin með hávaða og slæmum loftgæðum, og hins vegar miðborgin sem varð að griðarstað með hreinu lofti og ríkulegu mannlífi. Að lokum var fallið frá bílaborgarskipulagi Urbans Hansen og við tók uppbygging þeirrar Kaupmannahafnar sem við þekkjum í dag, þar sem almenningssamgöngur og umfram allt reiðhjól setja sterkan svip á samgöngumynstur borgarinnar.

Nytorv, Nýja torg á miðju Strikinu var notað sem bílastæði, sem þykir ótrúlegt í dag. Til að losna við bílaumferð í miðborginni er nauðsynlegt að fækka stæðum, svo vitnað sé í Jan Gehl. Mynd: Københavns Stadsarkiv.

Þróun á samgöngumynstri Kaupmannahafnar frá 1970 þegar bíllinn var allsráðandi. Mynd: Copenhagenize/Mikael Colville Andersen.

Storkurinn og Stjórinn

Strikið tók miklum stakkaskiptum við umbreytinguna frá bílagötu í göngugötu. Það vekur ef til vill athygli Íslendinga að ákvörðunin um að gera götuna að göngugötu var tekin að hausti og gerð að veruleika um miðjan nóvember, aðeins mánuði síðar. Sömuleiðis var ákvörðunin um varanlega göngugötu tekin í mars 1964, um miðjan vetur. Það kom ekki að sök, fólki fjölgaði á götunni frá því sem áður var og staldraði lengur við. Þetta varð til þess að aukning varð á verslun við götuna og sömuleiðis í veitingasölu. Mannlíf blómstraði einnig, rétt eins og það hafði gert fyrir tilkomu bílaumferðar á götunni. Storkbrunnurinn, Storkspringvandet, varð að táknrænum stað hippamenningar í Danmörku þar sem ungt fólk kom saman og ræddi heimsins mál á 7. og 8. áratugnum, spilaði á gítar og söng saman. Það gæti verið orðaleikurinn í texta Kims heitins Larsen í laginu De Smukke Unge Mennesker, sem hefst á eftirminnilegum orðum: „De kom flyvende med storken.“ Hér fyrir neðan má síðan sjá Kim árið 1988 flytja lagið, hvar annars staðar en á Strikinu:

Þá er ónefnt ógleymanlegt augnablik sem átti sér stað sama ár, 1988, þegar götusöngvarinn JoJo, sem er Íslendingum að góðu kunnur, var að störfum við Strikið. Sá hann ganga framhjá kunnuglegt andlit og ákvað að freista gæfunnar, kallaði „Hei, Bruce. Af hverju kemurðu ekki hingað og spilar með mér smá alvöru tónlist?“ Þetta var að sjálfsögðu enginn annar en stjórinn sjálfur, Bruce Springsteen, sem lét slag standa. Það er líklegra að ánægjuleg óvænt ævintýri gerist á göngugötu heldur en bílagötu.