Samráð við hagsmunaaðila í hverskonar breytingum er mikilvægt, þar sem raddir fá að heyrast og tekið er tillit til ólíkra sjónarmiða.

Við Laugaveginn mætast margir hagsmunir. Íbúar, rekstraraðilar, ferðaþjónusta, fatlaðir og í raun öll flóra mannlífs.

Við breytingar á opnun Laugavegar sem göngugötu er leitast við að hafa samráð við sem flesta aðila í ferlinu og tillögur bornar undir hagsmunaaðila í gegnum ferlið.

Dagana 28. janúar til 3. febrúar 2019 var efnt til opins samráðs um göngugötur í Ráðhúsi Reykjavíkur. Gestum og hagsmunaaðilum gafst tækifæri á skoða útfærslur, teikningar og ræða við sérfræðinga um málið. . Á samráðið mættu um það bil 200 manns en vettvangurinn var opinn milli 12 og 18 daglega en kvöldið 28. janúar var sérstakur fundur fyrir rekstraraðila og þann 30. janúar var haldinn fundur fyrir íbúa, ferðaþjónustu og fatlaða.

Óskað var eftir hugmyndum frá þeim sem sóttu samráðið og var annað hvort hægt að festa miða á kort eða skila þeim í hugmyndakassa. en allar hugmyndirnar má finna á miðasjánni. Einnig var hægt að setja hugmyndir sínar í hugmyndakassa eða koma þeim á framfæri á annan hátt. Hugmyndirnar voru alls 190 talsins og kom margt athyglivert kom í ljós.

Varðandi bílastæði komu 12 hugmyndir en þar bar hæst að það þyrfti að þrífa betur í bílahúsunum. Aðrar hugmyndir voru meðal annars að: Niðurgreiða í bílahús fyrir þá sem versla í miðborginni, setja tímamörk á þá sem leggja í hliðargötum, útbúa útgang um Smiðjustíg í Traðarkot og að skoða möguleikann á því að nýta leggja.is í bílahúsunum.

16 athugasemdir vörðuðu innviði.  Óskað var eftir fjölgun vatnspósta við Laugaveg, sólarhrings hjólageymslur, almenningssalerni, betri lýsingu, flokkunartunnur og hleðslumiðstöð fyrir rafmagnshjólastóla.

52 athugsemdir bárust um skreytingar á Laugavegi. En flestar eða 5 stykki bentu á skort á leiksvæðum. Fólk vildi líka: fjölga bekkjum,  mýkja lýsingu, gera eitthvað fallegt í myrkrinu, setsvæði við Kjörgarðstorg, listaverk í gangstéttina, dvalarsvæði sólarmegin, vindbrjóta á viðeigandi stöðum, gosbrunna, listaverk og viðburðalýsingu.

Varðandi aðgengi bárust 8 hugmyndir en þar voru 2 sem lögðu til ókeypis skutlur eða rafhjólastóla fyrir hreyfihamlaða sem hægt væri að nálgast í bílahúsum. Einnig var bent á að brýnt væri að bæta aðgengi inn í verslanir, tryggja þyrfti að í yfirborði göngugötunnar væru  skýrt afmarkaðar leiðarlínur, það þurfi skýrar merkingar á götum þar sem umferðargötur þvera göngugötur og setja strangar aðgengiskröfur á aðila sem eru nú þegar eru með fyrirtæki í rekstri við götuna.

Almennt um göngusvæði bárust 24 miðar en þar vildu 3 hefja göngugötur við Barónsstíg eða Stjörnutorg. Annað sem kom fram var að göngusvæðið ætti að hefjast við Hlemm, göngugatan ætti að ná niður Bankastrætið og tengja við Austurstræti, hjólreiðar yrðu bannaðar á göngugötu, fjarlægja stólpa í götunni og að halda ætti hliðargötum opnum.

Umferðaröryggi var líka tekið fyrir en þar var beðið um; að tímastilla polla til aðgangsstýringar, litla rafstrætóa, gangandi verði veittur forgangur, næg stæði fyrir fatlaða í hliðargötum, vegvísa við gatnamót, lengingu á grænu gönguljósi við Lækjargötu, Lækjargata verði gerð að 1+1 akrein plús hjólastígar og strætórein.

Þó nokkrar athugasemdir beindust að starfsemi við götuna en fólk bað um kvóta á minjagripaverslanir, þakgarða og takmarkanir á leiguverð fyrir atvinnurými. Einnig var beðið um blómamarkað, jólamarkað, grænmetismarkað og friðun eldri verslana svo sem Brynju, Stellu, Mokka og Sigurbogann.

24 óskuðu eftir því að gatan yrði áfram bílagata.

 

Aðrar hugmyndir sem komu í hugmyndakassann voru:

Að skapa „Nóg af lykilsvæðum, þungamiðjum“.

„Hikið ekki: Hafið Laugaveg sem göngugötu að Frakkastíg frá maí – 1.okt“

„Laugavegur sem göngugata er framtíðin með fallegum gróðri og skjólgóður þar sem fólk getur notið lífssins“

„Endilega að loka laugaveg – gefur færi á að bæta mannlíf og vonandi meiri fjölbreytni í verslanir fyrir þá sem búa í mið- og vesturbæ.“

„Fagna göngugötu! Hlakka til að ganga um bæinn án þess að vera í mengun og hafa pláss með vagninn“

„Ekki loka Laugavegi allt árið. Loka á ákveðnum tíma árs t.d. maí – sept. Passa hvar og hvenær vöruflutningamenn koma. Alltof oft sem ég hef verið vitni að því að það hafi næstum orðið slys. Þeir koma á öllum tíma dags og eru ekki varkárir fyrir gangandi umferð“

„Hafa Laugaveginn lokaðan allan desember svo að gangandi vegfarendur sem vilja kaupa gjafir andi að sér hreinu lofti, engin bílamengun.“

Laugavegur er:

„…tilvalinn sem göngugata. Á göngu minni um Laugaveginn á leið til vinnu verð ég mjög vör við mengunina frá bílunum. Ég upplifi mikla traffík gangandi vegfarenda bæði á morgnana og síðdegis. Það er æðislegt að geta gengið um laugaveginn án þess að þurfa að anda að sér mengun bílaumferðarinnar.“

„…þáttur af sjálfsmynd hvers reykvíkings eins og Esjan, Hann er ekki aðeins verslun og viðskipti heldur mál og menning  og saga. Þar mælir fólk sér mót og fer svo út að skemmta sér eða í leikhús eða á safn eða eitthvað. Hann á að vera göngugata og verða aftur fallegur.“

„… hættulegur fyrir börn á meðan það keyra bílar.“