Aksturstefnu á hluta Laugavegar verður breytt síðar í maí mánuði, en þá verður einstefna til austurs frá Klapparstíg að Frakkastíg. Þetta er nýjung sem hefur verið verið samþykkt hjá Reykjavíkurborg með fyrirvara um samþykki lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sbr. 2. mgr. 81.gr.  umferðarlaga nr. 50/1987.

Göngugötusvæði Laugavegar frá Klapparstíg til vesturs verður með þessu móti í sumar. Breyting á  akstursstefnu Laugavegar er gerð til að beina umferð frá Laugavegi niður Frakkastíg að Hverfisgötu frekar en upp Klapparstíg að Skólavörðustíg. “Með því að snúa við einstefnu á þessum kafla gerum við ráð fyrir að draga úr umferð akandi þar því nær eingöngu þeir sem eiga erindi á þennan hluta Laugavegar munu aka þarna,” segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir á skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Yfirborðsmerkingar og lagfæringar á yfirborði á gatnamótum Laugavegar og Frakkastígs og Laugavegar og Klapparstígs verða gerðar til að tryggja  öryggi og aðgengi. Sjá skýringarmynd hér að neðan sýnir hvar bláar örvar tákna breytta akstursstefnu.

Breytt akstursstefna á kaflanum frá Klapparstíg að Frakkastíg.