Undirbúningur og hönnun

Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs vinnur áfram að forhönnun og undirbúningi deiliskipulagsbreytingu í áföngum, í samráði við hagsmunaaðila. Það er í samræmi við samþykkt borgarstjórnar þann 4. september 2018 um göngugötur allt árið ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur.

Breytingin verður áfangaskipt og í fyrsta áfanga þessa verkefnis er unnið að forhönnun göngusvæða og hún verður lögð fyrir skipulags og samgönguráð haustið 2019. Forhönnun felur í sér útfærslur á hinum ýmsu lausnum til að bæta götuna og umhverfið. Má þar nefna aðgangsstýringar, eitt yfirborð, bætt aðgengi, leiðilínur og aðgengi inn í verslanir, dvalarsvæði og götugögn, lýsing og fjölgun stæða fyrir hreyfihamlað fólk.

Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður sem kynnti á málþinginu Léttum á umferðinni hugmyndafræðina á bak við göngugötur segir að markmiðið með útfærslu og endurhönnun göngusvæða sé að auka öryggi og vellíðun gangandi vegfarenda. “Göturnar fá nýja og aðlaðandi ásýnd með þessari endurhönnun þar sem gert er ráð fyrir gróðri, dvalarsvæðum, lýsingu og betrumbættu yfirborði,” segir Edda.