Tímabundið göngusvæði sumarsins 2019 var samþykkt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar miðvikudaginn 3. apríl. Útfærslan verður með svipuðu sniði og undanfarin ár á meðan unnið er að útfærslu á varanlegum göngusvæði.

Opnað verður fyrir göngugötur í sumar sem hér segir á tímabilinu frá 1. maí til 1. október 2019.

  • Laugavegur og Bankastræti frá Klapparstíg að Þingholtsstræti.
  • Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.
  • Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis
  • Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstræti.

Göturnar verða aðeins opnar fyrir vöruafgreiðslu kl. 07.00 til 11.00 virka daga og kl. 08.00 til 11.00 á laugardögum en annars lokaðar fyrir allri almennri umferð á tímabilinu.

Við göngusvæðið eru bílahús, bæði Bergstaðir og Traðarkot – alls 328 stæði. Einnig eru bílahús í Kolaportinu og Hafnartorgi – alls 1266 stæði. Á svæðinu eru 21 bílastæði í götu í dag.

Með þessu móti má skapa betra verslunarumhverfi og koma til móts við nýjar áskoranir í verslun þar sem upplifun og þjónusta eru stór þáttur. Gangandi vegfarendur fá betri hljóðvist á öllu svæðinu, minni mengun og aðgengi fyrir alla er betrumbætt. Þá verður aðstaða til vörulosunar bætt.